það er stuð

sunnudagur. Sif á afmæli. 10 ár síðan ég sat á sófanum heima hjá foreldrum hennar á Víðimelnum að bíða eftir símhringingu. Mamma hringdi í mig. Sagði að hún væri komin í heiminn. Talaði mikið um hana, en það var ekki fyrr en mamma sagði að hún væri með dökkan hárlokk sem það sló mig, að það væri fæddur nýr einstaklingur í fjölskylduna. Fékk gæsahúð. Var svo heima þegar Snorri kom tilbaka, örþreyttur og í sæluvímu, fékk sér að borða og fór að hringja í fjölskylduna. Kom mér þá heim glæný móðursystir. Er boðin í afmæliskaffi í Garðabæinn í dag. Kemst því miður ekki.

Lagaði hjólið mitt áðan. Búin að vera bremsulaus í marga daga. Er orðin ótrúlega góð í að hjóla án bremsa. Maður hægir á sér á réttum stöðum, tekur kóngabeygjur, og notar skónna óspart. Svo segir maður "ó sjitt" nokkrum sinnum á mínútu og vonar það besta. Þetta hefur óneitanlega minnt mig á söguna sem mamma segir alltaf af mér þegar ég lærði að hjóla. Hjólaði alsæl allan daginn, kom svo inn að kveldi með tærnar framúr stígvélunum. Kunni bara að hjóla, ekki bremsa.

Passaði Styrmi á föstudagskvöldið fyrir Hjördísi og Kára. Þau skelltu sér út að borða hjónakornin. Þeim veitir ekki af smá pásum. Styrmir var kátur sem bátur. Alltaf gaman að hitta vin minn. Hann var þó ekki par sáttur þegar mamman og pabbinn fóru, og lét í ljós mikla gremju. En með baði og pela og lestri bóka þá lagaðist þetta nú allt og hann fór alveg sáttur að sofa. Þá var komið að Unu að fara í bað :) Þau leigja þetta fína hús, með þessu fína baðkari. Þetta voru mjög góð skipti. Þau fara út að borða. Ég fer í bað. Þetta var æði! Rauðvínsglasið og kertaljósin gerðu sitt.

Kínaferðin var náttúrlega alveg stórkostleg. Mikið skoðað og sýn mín á Asíu hefur skerpst aðeins. Ég veit meira um samfélagið sem vinir mínir koma frá. Þetta var mjög áhugavert og varla hægt að lýsa sumu sem maður upplifði. Fólk verður bara að upplifa það sjálft. Lyktin, loftið, hljóðin, litirnir. Fólkið var misjafnt eins og það var margt, en það var þó í heildina mjög vingjarnlegt. Sölumenn eru ekki mjög vingjarnlegir og ökumenn ekki heldur. En hitt fólkið meinar vel. Og það er heldur ekki hægt að vera túristi þarna og dæma fólkið fyrir að vera ruddalegt. Þetta ER þeirra menning, og það sem okkur finnst ruddalegt finnst þeim bara allt í þessu fína. Og þá er það bara þannig. Þá eru það bara við sem erum óhóflega viðkvæm. Er enn að vinna í myndunum sem fylltu marga minniskubba. Ég mun pósta nokkrum bráðlega þó.

Skólinn gengur vel. Erum núna að vinna alla daga að þeim upplýsingum sem við öfluðum okkur í Kína. Koma þeim í tölvutækt form og erum að vinna að kynningu sem verðu næsta föstudag. Hópurinn er góður, hristumst vel saman þarna úti. Lokaverkefnið mitt stendur yfir allt þetta ár og megnið að því næsta má búast við. Lóðin er í Peking, valdi mér lóð meðan ég var úti. Mun hanna íbúðarhúsnæði þar...

Hér er bara fallegt haustveður alla daga. En heima er ekki haustveður er alveg ljóst. Ótrúlegur kuldi og snjór. Vonandi eruð þið vel klædd sem búið á Íslandi.

Fréttir síðasta mánaðar voru þær að Gréta vinkona eignaðist frumburðinn sinn ásamt honum Arnaldi sínum. Hefur prinsinn fengið nafnið Ingólfur Breki og mér lýst vel á drenginn og nafnið.

Fjölskyldan mín tók sig til og endurnýjaði kjallaraherbergið mitt eftir að leigjandinn minn til 3 ára flutti út. Þau stóðu sig rosalega vel og lögðu í þetta mikla vinnu. Teppi rifið af, skápur tekinn niður, allt málað, pípulagnir lagðar og rafmagn, parketlagt og listar, eldhúsinnrétting sett upp, leigjandi fundinn og málið klappað og klárt. Hefði ekki getað gert þetta betur hefði ég verið þarna sjálf. Mér leið samt óneitanlega doldið skringilega og klæjaði í fingurna. Mér finnst gaman að svona verkefnum. En eins og bróðir minn orðaði það. Það verður ennþá nóg eftir að gera fyrir mig þegar ég kem tilbaka. Gott að vita. Þetta er núna flottasta kjallaraherbergi vestan Elliðaáa.

Ég er alltaf að klippa hár. klippa klippa. Er orðin það örugg með skærin að ég tók mig til og klippti MIG. Núna er ég með doldið spes hár. Nánast ekkert hár. Það er vandinn með að klippa. Það er svo erfitt að stoppa. Maður verður hálf manískur. En ég er nú bara ansi sátt við verkið. Hressandi. Mæli með þessu.

oooh, geri þetta ALLTAF. skrifa ekki lengi lengi, og skrifa svo þvílíka langloku og öllum er eflaust nóg boðið.

en gott fólk, vonandi hafið þið það gott hvar sem þið eruð!


Hlekkir