Sælt veri fólkið sem les þetta blogg...Jæja það er ekki búið að taka skottið af kisu, en hún fór á spítala í tvo daga og það er búið að sauma bágtið og nú verðum við bara að vona að blóðrásin taki við sér og skinnflipinn deyi ekki. Hún er á lyfjum sem er ekki þægilegt að gefa henni tvisvar á dag. Ég er núna með tilraun í gangi hvort hægt sé að smygla lyfjunum í matinn hennar, því ég er öll útklóruð eftir hana í gær þegar hún trylltist við lyfjagjöfina.
Fórum í ferðalag í gær til barnalæknisins sem gaf Baldri tvær stórar sprautur í lærin, ááái, honum brá mikið og grét hástöfum í svona 20 sek. svo var allt búið. Duglegur strákur! Kíktum á bókasafnið í Mountain View og röltum aðeins um en fórum svo bara heim. Annars er framundan Memorial Day helgin, þá er frí á mánudaginn og löng helgi því framundan. Það er hittingur hjá rólóhópnum hans Baldurs á laugardagsmorgun, svo spilað um kvöldið. Á sunnudaginn ætlum við svo að reyna að fara í ferð með ferju út í Angel Island og skoða okkur um þar.
Snorri kom í gær úr einnar nætur ferðalagi frá Vancouver þar sem hann var á ráðstefnu. Segist enn ekki búinn að sjá Vancouver þar sem hann er alltaf fastur á einhverjum fundum eða fyrirlestrum, þó hefur hann komið þar oftar en einu sinni. Við Guðrún erum að spekúlera að kíkja þangað eina helgi í sumar. Vorum að skoða hótel í gær veieiei... Svo frétti ég að Pixies hefðu verið frábærir, Ragnhildur hringdi í mig frá tónleikunum og hélt uppi símanum svo ég gæti heyrt þau spila "monkey gone to heaven", það var æðislegt, ég fékk gæsahús og leið alveg eins og ég væri þarna... svona næstum því :) Annars keyptum við okkur miða á tónleika með Train og ég held það gæti verið mjög gaman.
Vona að þið hafið það gott á landi Ísa, er ekki búið að vera svo fínt veður núna undanfarið??



Hvað er að gerast hjá blogger?



æjæjæj... ekki góður dagur. Kom heim eftir að hafa sótt Sif í skólann, hún var eitthvað óhress, var með Baldur pirraðan í fanginu og opnaði útidyrahurðina og fór með hjörðina inn, en þá ákvað kisa að nýta sér tækifærið og stökkva út, nema ég tók ekkert eftir því og skellti hurðinni, á skottið á henni !!! Guðrún fór með hana til dýralæknis sem vill fá fjármúgu borgaða fyrir að taka af henni toppinn á skottinu. Núna liggur hún undir rúminu hjá mér með umbúðir um skottið og á verkalyfjum en þarf örugglega að fara í svæfingu og uppskurð fljótlega. HRÆÐILEGT !! Litla greyið bara átti sér einskis ills von... þar til ég kem og skemmi á henni skottið :( Get ég fengið plástur og verkjalyf við samviskubitinu mínu takk...ég held ég þurfi að skæla



Ég er svo aldeilis klessa! Mér er ekki ætlað að setja hér inn myndir. Búin að hala niður voða fansí forriti sem lofar öllu fögru og svíkur allt sem það segir. Ég stend ekki á Samma...
En já... góður dagur. Byrjaði þó ekki svo vel. Ég var í föstudagsfíling í gær og var að nauða í Guðrúnu að gefa mér áfengi, sem hún og gerði. Hún blandaði handa okkur voða góða Mudslide (drullumall í ísl. þýðingu) sem við renndum niður kokið á MÉR með bestu lyst, því hún drakk ekki sinn nema að hálfu leyti þannig að ég varð að draga hana að landi... sem þýddi bara eitt, ég fékk hlutfallslega miklu verri magaverki í nótt en hún. Það var örugglega eitthvað að þessu áfengi því ég vaknaði kl. 4 í nótt með agalega verki í kviðarholinu ( e.r. áhorfandinn búinn að pikka ýmislegt upp) og hún sagði að hún hefði fengið smá verki... great! Síðan hvenær hefur það borgað sig að drekka lítið??? Mér er spurn! Það er reyndar altalað að Guðrún eigi við drykkjuvandamál að stríða, hún klári aldrei drykkina sína! Háalvarlegt mál. En já, í morgun vakti Guðrún mig með látum og dró mig fram úr rúminu og í gymið, þar sem við hoppuðum i klukkutíma, ég á fastandi maga og enn hálf sofandi... mér allavega tókst aldrei að hafa réttu löppina á lofti miðað við sporin sem voru í gangi. En ég lifði af, við fórum og sóttum Sif, Snorra og Baldur á soft-ball leikinn. Fórum heim, allir í sturtu og skelltum okkur svo í langferðabílinn og inn í borg, on the road again lalalllalalal, fórum á listasýningu þar sem Charlotta Hauksdóttir, kunningjakona þeirra Gu og Sno var að sýna myndir sem hún gerði, og margir aðrir menn sýndu listir sínar. Frekar flott. Kíktum á kaffihús og aðeins í búðir, ég náði að versla mér tvö kíló af sjampói sem ég rogaðist með úr Aveda búðinni. Fundum rútuna aftur og fórum heim. Svo höfum við Guðrún setið yfir tölvunni og reynt að fá Hello forritið til að posta myndir hér inni, en nei ekki hlýðir það, HELLO !!!
San Fran er flott borg og ég ætla að fara þangað fljótlega aftur og skoða mig betur um.
Jæja fólk, ég er hætt
bless, Una



Já, smá byrjunarörðuleikar... mér skilst að ekki allir geti commentað hérna, þótt ég hafi stillt það þannig að allir gætu það. Me not fatt. En allavega. Var að fá úthlutað fyrsta skólaverkefni haustsins, þar sem við eigum að kryfja (ekki bókstaflega) einn arkitekt og mér var úthlutað Enric Miralles sem ég veit voða lítið um. Nú verður farið á Amazon og leitað. Það er fínt að geta notað sumarið í undirbúning og heimildaöflun.
Núna er klukkan korter í tíu og litli kallinn sefur. Hvað við gerum í dag er óráðið, kannski finnum við okkur góðan róló. Baldur er farinn að labba heilmikið en treystir sjálfum sér ekki alveg nóg, hann labbar og labbar og svo er eins og hann fatti að hann er að labba og þá lætur hann sig detta. Mikið að gerast hjá honum þessa dagana, ýmislegt sem hann er að uppgötva.
Nú svo er hér kisa sem heitir Sóley, en ég kalla að sjálfsögðu bara kisumús, hún er mjög fín og við erum orðnar fínar vinkonur. Afskaplega þolinmóð gagnvart eilífu skott-tosi Baldurs.
Sif er rosalega dugleg í öllu sem hún er að gera. Hún er dugleg í skólanum, fimleikum og softball (mini-hafnarbolti). Fyrsta keppnin var síðustu helgi, eins og sjá má hér og svo verða leikir alla laugardaga í sumar. Liðið heitir Heatwave (hitabylgja) og þær rokka stelpurnar. Eiga eftir að rúlla þessu upp.
Ég fór að leita að tónleikadagskrá Pixies en þeir eiga ekki eftir að koma nálægt flóasvæðinu (bay area) fyrr en ég er farin heim héðan, búhú, þannig að ég verð bara að skreppa til Bretlands í haust til að berja þá augum. Góða skemmtun þeir sem ætla að skella sér í Kaplakrikann. Í þessu hringir Ragnhildur og tjáir mér að hún sé að sitja Will og Grace maraþon, vona að hún klári það... dugleg stelpa !
Og nú er Baldur vaknaður... meira seinna, kveðjur til allra á Íslandi frá okkur !



Jahá, maður er bara búinn að vera hér í rúmar tvær vikur! Gasalega er tíminn fljótur að fljúga! Annars gekk ferðalagið bara vel, flaug á þrjá flugvelli, Minniappólís, Las Vegas og San Fran. Held ég hafi aldrei eytt svona löngum tíma á flugvellinum í Minniappólis, hef alltaf bara hlaupið í gegnum hann. Missti ekki af miklu greinilega. Svo eyddi ég sárlega löngum tveimur klukkutímum í Las Vibbas, virkilega subbulegur staður! Ef það er einhversstaðar smekkleysi þá hlýtur það að vera í Vegas. Og ef flugvöllurinn er dæmi um borgina þá hef ég ekki áhuga á henni. Aftur á móti var San Francisco flugvöllur nógu góður fyrir mig, snobbhænuna.
Snorri sótti mig á völlinn, þá var ég búin að vera á ferðalagi í 16 tíma, orðin stjörf af þreytu. Hann mætti á glænýjum bíl, Honda Odyssey (ekkert smá)minivan... bigvan, largevan, langferðabíll væri réttnefni. Þetta er faraskjóti minn hér í sumar, alveg eðalbíll og góður í akstri.
Hitti mína elskulegu stóru systur, klukkan var að ganga þrjú um nótt á staðartíma, allir þreyttir og ég lamdi heyið (hit the hey). Sem er það sama og ég ætla að gera núna, orðið er framorðið... Ingibjörg !

Meira seinnazzzzzzzzzzzzzzz



Heyra allir í mér?


Hlekkir