Ragnhildur komin og farin... sniff. Mjög gaman að hafa hana hér, ferðasöguna má lesa á blogginu hennar.

Ragnhildur kom færandi hendi. Kærar þakkir fyrir sendingarnar. Bækur og íslenskt góðgæti. Er enn að gæða mér á hangikjeti og skyri. Treina mér þetta eins og ég get. Slúrp.

Er að skrifa ritgerðir. Og einmitt á sama tíma finnur maður þörf fyrir að setja myndir á netið. Sjá hlekk hér til hliðar.

Hér er kominn vetrartími. Því aðeins klukkutíma munur á Íslandi og Hollandi. Þó enginn vetur í veðrinu, allavega ekki í dag og gær. Hlýtt, sól, haustlegt og fallegt.

Kveðjur í kuldann heima.



Já, farin að hjóla ansi hratt. Miðað við flugulíkin framan á mér þegar ég er komin á leiðarenda. Þarf að fá mér skyggni á stýrið, svona gegnsætt og fínt. Svo fer maður kannski bara að setja mótor á gripinn. Og veifur. Og spil í teinana. Gasalega fínt.

Já, Ragnhildur kemur á morgun. Það verður áhugavert að sjá hvernig dagurinn verður. Er í miðri kynningu þegar hún kemur, fæ að skjótast á lestarstöðina til að taka á móti henni, og svo er spurning hvort hún hangir heima þar til ég er búin eða fer með mér í skólann.

Var að borða, Linda á leiðinni, vinnum frameftir að þessari kynningu. Svo eftir morgundaginn hægist á, bara tvær ritgerðir eftir tvær vikur og stærri kynning á stúdíó-verkefninu þann 10. nóv.

Fór á kynningarfund áðan vegna hollenskunámskeiðs sem ég ætla að byrja á núna í næstu viku. Ef ég kemst að, ótrúlegur fjöldi sem ætlar sér þessi örfáu lausu sæti. Samkeppnin hörð hérna.

Allavega, kveðjur frá Hollandi.



ó já

Ragnhildur undrasystir kemur í heimsókn á fimmtudaginn eftir 6 daga! Get ekki beðið :)








Þetta landslag í er nokkurra mínútna hjólatúr frá miðbæ Delft. Snoturt.



Þess á milli eru hektarar á eftir hekturum af landi þakið gróðurhúsum. Risastórum gróðurhúsum. Glerborgir.



Hef mörg nöfn að læra. Meira en helmingurinn af þeim eru asísk nöfn. Það gengur ekki þrautalaust fyrir sig. Ég hef reitt mitt á hjálp Rens til að hjálpa mér að muna nöfnin á sumu fólki. Ein vinkona okkar er frá Japan og heitir Ayumi. Ég gat ekki munað þetta. Ómögulega. Hann benti mér á að þetta hljómaði eins og "Are you me?" nema bara með meiri kanahreim þannig að R-ið heyrist ekkert. Ótrúlega sniðugt. Ekkert mál að muna þetta hugsa ég. Nema svo ákvað hann að spurja mig daginn eftir hvort ég myndi nafnið á henni.
Ég: (pása... hmm...) "yes I remember! Am I you?"

Hélt hann myndi hjóla á tré, hann hló svo mikið og síðan er búið að gera óspart grín að mér, og um leið er fólk farið að kalla greyi stelpuna "Emiyu".



Já, fyrsta yfirferðin afstaðin.
Vorum í yfirferð frá kl. 10 til 18. Ásamt fyrirlestri frá kennaranum. Olaf Gipser heitir hann, lýst mjög vel á hann, og viðhorfið hans til kennslu.
Dagurinn byrjaði reyndar ekki svo vel, þar sem ég vaknaði í seinna lagi, OG báðar stelpurnar sem ég vinn með í hóp, þannig að við vorum á eftir áætlun að fara í skólann og prenta (já, maður prentar ALLTAF rétt fyrir yfirferð, ehaggi???!) Vorum samt mættar hálf níu. Samt tók það okkur EINN OG FO..ING HÁLFAN TÍMA!!! Allt klikkaði sem gat klikkað. Stillingar, prentari, inneign til að prenta... og það var geðveik röð. Þannig að... note to self: "prenta daginn áður!" En þetta fór nú allt vel og hann reif okkur ekki á hol fyrir asnaskapinn. Yfirferðin gekk vel, höfum nóg að vinna úr fyrir næstu viku. Hlakka til. Erum að rannsaka svæði hér rétt hjá, og ætla að hjóla þangað um helgina.
Eftir yfirferð og fyrirlestur vorum við öll úrvinda. Við Linda höfðum verið hér heima að vinna til 3 í nótt, og svefn undanfarnar nætur verið í pikkles. Allir þurftu því eitthvað annað en að fara heim og sofa. Fórum sex saman að versla, í þetta skipti í ALDI, sem er miklu miklu ódýrari en Albert Heijn (sem er hér á horninu). Og ég veit líka af hverju hann er ódýrari. Þetta er svona Bónus búð nema bara án alls skipulags. Allt út um allt. Svona var uppröðunin af vörum: gervi-kók, kaffi, regnhlífar, bananar, sulta, hnetusmjör, batterí, egg, íþróttasokkar, grænt sull, sardínur, baunir, ostur og loks þetta:

Það var alveg heil sería af mér. Klósetthreinsir, uppþvottalögur, töflur í uppþvottavélina, skúringalögur...ég var heilluð! (btw, það var sérstaklega beðið um dramatísk tilþrif)

Já já, skemmtileg búð. Fer örugglega aftur, þegar ég er búin að borða súkkulaðihúðuðu piparkökudropana sem ég keypti.. óvart. Hélt þetta væri súkkulaði, leit þannig út á pokanum. Svo eru þetta piparkökur! Hreint ekki slæm hugmynd. Bragðast ágætlega. Hvernig á maður að vita hvað Kruidnootjes þýðir? Mér er spurn. Keypti líka sardínudós. Bara af því hún var svo fallega gul.

En já, heim komum við. Katarina hin gríska kom í heimsókn, hún býr með kærastanum niðrí miðbæ. Langaði að sjá hvernig við hin einstaka fólkið hefðum það hér í Roland. Ég eldaði meðan hún pústaði út vegna hópsins síns (stundum erfitt að vinna í hóp). Fórum svo upp til Rens með matinn þar sem Hui Ping, Shuyan og Bing höfðu eldað líka. Settumst á gólfið og borðuðum. Þau sitja á gólfinu eins og atvinnumenn (asíubúarnir). Ég fæ náladofa eftir 5 mínútur, og þau gera grín að mér að sjálfsögðu. Það var spjallað og skrafað og mikið hlegið. Fékk lófalestur. Það eru einhverjir möguleikar (slim-to-none) á að ég muni gifta mig, það verður á miðjum aldri. Ef ég missi af því tækifæri verður ekki meira um tækifæri! Maðurinn verður mjög fallegur (ef ég missi ekki af honum!). Ég mun eiga góðan feril. Og ekki mjög erfitt líf. Já, gott að vita. Þarf að fá mér sterkari gleraugu til að missa nú örugglega ekki af þessum fallega manni. Og hvenær er miður aldur??? Þrítugt? Fertugt? Fimmtugt? Þarf ég ekki að vita hvenær ég dey til að geta fundið út miðjan aldur minn? Æ þetter svo erfitt...

Ú ú, já... Þórir og Jóhanna Kristín eru búin að boða komu sína í lok nóvember! Eins og ég sagði...good times!

Nú ætla ég í bólið með Patrick Healy. Hann er fljótur. Bara 20 blaðsíður.



var ég í bumbunni á mömmu. Mamma tók þátt í kvennafrídeginum árið 1975 og ég myndi gjarna vilja taka þátt í honum árið 2005. Síðan ég var lítil og heyrði fyrst um þennan kvennafrídag, hef ég verið stolt af mömmu að hafa tekið þátt í honum. Það voru eflaust mjög margar konur sem vildu en ekki gátu/þorðu að gera slíkt hið sama. Ef ég væri á Íslandi myndi ég hiklaust mæta á Skólavörðuholtið og hleypa út femínistanum í mér. Það hefur að sjálfsögðu mikið áunnist á síðustu 30 árum, og þó það væri ekki nema til að þakka mæðrum okkar og ömmum fyrir baráttuna sem varð okkur í hag, þá hvet ég kynsystur mínar til að mæta og standa vörð og krefjast jafnræðis. Enn má sjá launamun milli kynja fyrir sömu vinnuna. Ég er spurð hér hvernig ástandið sé á Íslandi, hvort mikill munur sé á skyldum kvenna og karla. Fólk verður mjög hissa þegar ég segi þeim að þó ástandið sé víða verra en á Íslandi, þá sé ennþá ríkjandi mismunandi launastefna. Það er ekki eðlilegt, það er ekki náttúrulögmál og það er ekki siðferðilega rétt að konur fái lægri laun er karlar fyrir sömu vinnuna. Launamunur er misrétti hvernig sem á það er litið.

Fyrir 30 árum.

Konur - leggjum niður störf Jafnrétti núna! Nú gefst kjörið tækifæri til að taka þátt í að skapa kvennasögu Íslands og láta til sín taka í baráttunni fyrir jafnrétti því hinn 24. október næstkomandi verður kvennafrídagurinn endurvakinn en þá eru liðin 30 ár frá kvennafríinu 1975. Konur eru hvattar til að leggja niður störf klukkan 14:08 en þá hafa þær unnið fyrir launum sínum, ef litið er til munar á atvinnutekjum karla og kvenna sem eru 64,15% af launum karla. Samkvæmt þessu eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum, eftir fimm tíma og átta mínútur (miðað er við vinnudag kl. 9-17). Kröfuganga verður farin frá Skólavörðuholti, niður Skólavörðustíg og að Ingólfstorgi. Mæting á Skólavörðuholti kl. 15. Yfirskrift göngunnar er ,,Konur höfum hátt" og eru konur hvattar til að taka með sér eldhúsáhöld, svo sem potta og járnsleifar eða ásláttarhljóðfæri til að framkalla hávaða. Hugmyndin er sú að konur hafa verið hljóðar of lengi og nú er kominn tími til að við látum í okkur heyra og krefjumst jafnréttis núna!



Í gær fór ég í langferðalag. Eina klukkustund tók það. Fór með Rúnu til Amsterdam. Mér hafði verið sagt frá pakka sem ég ætti, sem Atli vinur Ragnhildar tók að sér að flytja inn í landið. Kíktum í búðir fyrst, ætlaði bara að hitta Atla seinnipartinn. Svo hitti ég hann bara á göngugötunni fyrir tilviljun. Lítið land. Fór svo seinnipartinn að hitta hann. Fékk þennan fína Bónus poka fullan af harðfisk, nammi og ullarsokkum. Og bréf frá mömmu og bréf frá Ragnhildi. Takk fyrir mig!

Rúna í lestinni, að horfa á kusurnar.

Atli, Una og brotabrot af namminu góða.

Fór svo heim til Delft, var boðin í mat hér í húsinu. Shuyan frá Hong Kong hafði tekið sig til og eldað kínverksan mat, svo kom fullt af fólki og flestir með eitthvað til að borða líka. Þarna var dim sum, kjúklingur í súrsætri, kartöflur með grænu karrýi, og margt fleira sem ég kann ekki að nefna. Ég kom svolítið seint, en kom með harðfisk og nammi beint úr flugi frá Íslandi. Við vorum þarna 10 manns, 3 frá Evrópu og rest frá Asíu. Allir gátu borðað harðfiskinn, en það er greinilegt að lakkrís er eitthvað Evrópskt dæmi. Skar niður Draum og Tromp, lakkrís í báðum. Asíubúunum fannst súkkulaðið gott en spíttu svo út úr sér lakkrísnum!! Jaðrar við helgispjöll. En svo var líka í boði Mooncake, sem er kínversk kaka, að hluta til úr lótus plöntunni skilst mér. Hún var fín. Kannski ekki nógu sæt fyrir minn smekk.

Svo kíktum við Ren til Rotterdam þar sem vitað var að hluti bekkjarfélaga væru að skemmta sér. Fundum þau í góðu stuði á dansgólfi á Rotown. Dj-inn var kannski ekki sá alltra besti, en það var alveg hægt að dansa. Svona yfirleitt. Nema þegar það kom pan-flautu útgáfa af Nirvana laginu Smells like teen spirit.
Þessum stað lokaði kl. 3. Þá var farið á stúfana að leita að nýjum stað. Fundum einn pöbb rétt hjá. Hjá okkur settist hollensk stelpa sem fór að útbýta appelsínum. (já Ragnhildur, það var svona izzard-atriði, með tilheyrandi hlátrarsköllum frá mér). Hendrik hinn þýski spurði hana: " do you always travel with your fruit with you?" Hún svaraði: "yes, I'm a rich bitch!" Greinilegt hverjir eru ríkir í hennar huga. Þeir sem ferðast með ávexti. Ekki svo vitlaus skilgreining.

Appelsínubörkur í appelsínu-bjórglasi.

Ren og Linda að tala um eitthvað merkilegt.

Við Sandra frá Þýskalandi ekki að tala um neitt merkilegt.

og að lokum appelsínu-konan, sem fór að rúlla sér jónu, mjög fagmannlega gert hjá henni.

Hér er svo áríðandi tilkynning. Sylvía Oddný Einarsdóttir stór-vinkona á afmæli í dag 1. október. Þrítug stelpan, ég meina konan. Unglambið ég ennþá BARA 29 ára. En ekki lengi, onei. Til hamingju með daginn elsku vinkona! Ástar- og saknaðarkveðjur.


Hlekkir