Helgin var frábær. Fékk þær Hrafnhildi og Steinunni yfir til mín á föstudag, leyfði Gu og Sno að fara út að borða og í bíó (eða rak þau út úr húsi). Það var stelpu-margarítu-nammi-kjaftakvöld hjá okkur. Þær sváfu svo hér aðfaranótt laugardags. Fórum á laugardagsmorgni í "Kringluna" og eyddum mörgum klukkutímum og dollurum þar. Mjög gaman, keypti mér fullt af fötum í Old Navy, haustvörurnar komnast sko. Fórum svo yfir til Mountain View á Stanford svæðið þar sem Steinunn býr. Hún var ein heima um daginn því Hrefna og Finnur voru boðin í grillpartý heima hjá okkur hér í Fremont. Við höfðum önnur plön. Fórum að versla mat og drykk, gerðum okkur fínar og sætar, borðuðum og drukkum hina ýmsu drykki og fórum svo að tjútta á University Avenue. Kíktum á Blue Chalk Café og Nola, mjög skemmtilegir staðir og sérstaklega þar sem við náðum að smygla Steinunni, sem vantar nokkra mánuði í 21 árs afmælið, inn með okkur á mínum skilríkjum. Spennandi. Hittum fólk og spjölluðum, vorum komnar heim til Steinunar um 2leytið flissandi eins og smástelpur, að reyna að vekja ekki heimilisfólkið. Langt síðan maður hefur farið á tjúttið. Sunnudagur var rólegur, örlaði á þynnku, fórum heim til Fremont í sundlaugina og slökuðum á.

Stelpurnar S og H

Fór í bíó áðan á Bourne Supremacy. Við Gu og Sno höfðum leigt fyrri myndina, Bourne Identity í síðustu viku til að vera með allt á hreinu og rifja upp atburðarrásina. Mæli með þeim báðum. Nýja myndin er að mínu mati betri en hin fyrri. Stíllinn er örlítið ólíkur hinni, en það kemur ekki að sök. Sitjið bara aftarlega í bíósalnum þegar þið sjáið hana.

Matt Damon aðalleikarinn í Bourne Supremacy

Guðrún og Snorri eru búin að vera að ræða sumarfrí undanfarið og nú hefur verið ákveðið að skreppa eina viku til San Diego í lok ágúst. JEIII !!! Þangað er 8 tíma akstur í gegnum L.A. Þetta er ferð sem þau eru búin að langa að fara í mörg ár en aldrei gert. Þau voru að spurja mig hvort ég færi ekki örugglega 30. ágúst heim, og ég sagði jú, (búin að segja þeim það mjög oft á undanförnum dögum) en ákvað nú að vera aaaalveg viss. Kíkti á miðann og þá virðist sem ég fari héðan degi fyrr. Legg af stað 29. ágúst og lendi að morgni mánudagsins 30. ágúst heima í sönní Kef. Eins gott að hafa svona hluti á hreinu...

Verslunarmannahelgin nálgast óðfluga... einhver plön? Segja nú Unu sinni frá því svo ég viti hvar þið eruð. Upp'á palli, inn'í tjaldi, út'í skógi, vonandi skemmtið ykkur vel!





Ragnhildur, Hildur, Áslaug og Atli í Unuhúsi að grilla á leið í pottinn að liggja í bleyti. Góða skemmtun kids.



Stuttu eftir að ég kom hingað út í sumar fórum við á stúfana að finna tónleika til að fara á. Að hluta til vegna þess að Guðrún var með snert af samviskubiti að ég skyldi missa af Pixies tónleikunum heima sem ég var búin að kaupa miða á, og að hluta til vegna þess að okkur bara langaði á tónleika öll saman. Miðar voru keyptir og í kvöld fórum við á tónleika með hljómsveitinni Train.
Jimmy gítarleikari Train, mynd fengin að láni frá heimasíðu hljómsveitarinnar.

Steinunn kom og bjargaði okkur með því að passa Baldur á meðan við hin færum að tjútta á tónleikum. Það gekk allt mjög vel og Baldur ekkert ósáttur við skiptin. Enda svo vel upp alið og gott barn. Við lögðum snemma af stað, vissum að það var töluverð keyrsla á tónleikasvæðið. Lögðum bílnum við einhvern skóla, þar sem biðu eftir okkur skutlur til að keyra okkur upp að sjálfu svæðinu Montalvo. Gömul hús og mjög fallegt umhverfi. Þetta var lítið útitónleikasvæði, með bekkjum og grasi vöxnum pöllum. Mikil nálægð við hljómsveitina. Gróður allt um kring, veitingastaður og útigrill, fólk að smakka vín og Lexus bílaumboðið var styrktaraðili og sýndi bílana sína við hliðina á sviðinu. Engin upphitunarhljómsveit, bandið byrjaði bará á tilsettum tíma og spiluðu mjög skemmtileg lög. Aðallega þeirra eigin lög, flest kannaðist maður við, en ekki öll. Söngvarinn var mjög fyndinn, söng æðislega vel, hljómsveitin spilaði mjög melódískt rokk og djömmuðu vel saman.  Voru sex á sviðinu og gott sánd í þeim.  Svo tóku þeir lag með Led Zeppelin frábærlega vel. Söngvarinn með sama raddsvið og Robert Plant, það ætlaði gjörsamlega allt að tryllast. Tóku Faith eftir George Michael mjög vel líka. Drops of Jupiter var svo rúsínan í pylsuendanum, biðu með að taka það þar búið var að klappa þá upp.    Í alla staði frábært kvöld.



Fórum á róló í Central Park í morgun. Mikið fjör, mikið gaman. Þar er flottur leikvöllur og Baldur alltaf að verða meira og meira þorinn. Vill renna í rennibrautum og skoða króka og kima leikgrindanna.


klifri klifri


strike a pose...


víííí



Langri og viðburðaríkri helgi lokið.  Saumaklúbbur á föstudagskvöld upp í San Franciscoborg hjá Charlottu.   Afar skemmtileg kvöldstund með kvensum af svæðinu og ljúffengar veitingar sem var skolað niður með afar góðu hvítvíni.  Þar sem við Steinunn systir Finns og Rannveig frænka Láru (konu Halldórs) höfðum planað að eyða laugardeginum í borginni ákváðum við að panta okkur hótelherbergi og gista aðfaranótt laugardags.  Fínt hótel þótt aðeins tveggja stjörnu væri og á frábærum stað.  Kíktum aðeins á næturlífið en það var að lognast út af um 2 leytið þegar við vorum að fara af stað.  Á laugardag var svo San Francisco tekin með túristasjónarmiði.  Gengum rosalega mikið, nánast allan daginn.  Fórum um Fishermans Warf, Rannveig dýfði tásunum í Kyrrahafið, fórum á vaxmyndasafn, versluðum (eða ég sko) skó með klaufum, fórum í hand- og fótsnyrtingu, fórum í Kínahverfið þar sem við leituðum uppi nuddstofu þar sem allar áhyggjur um að vera að eyða of miklum peningum voru kreistar úr okkur og röltum okkur svo eftir að hafa skoðað mikið í átt að lestarstöðvunum.  Það var ekki alveg eins auðvelt að koma sér heim.  Rannveig viltist aðeins af leið en komst þó á endanum.  Við Steinunn ákváðum að ég kæmi með hennar lest heim til þeirra þar sem ég fékk að gista eina nótt. 
Í dag sunnudag fékk ég svo far með þeim heim því þau ákváðu að kíkja í heimsókn og fara í sund.  Afar heitt í dag og sundlaugin var vel nýtt.  Svo var spilað fram á kvöld og ég er ekki frá því að maður sé bara ansi dasaður eftir þessa löngu og skemmtilegu helgi.
 
Enda með einni mynd af skónum mínum fallegu. 

Já steingeitur eru klaufdýr.




Baldur stóri orðinn 14 mánaða




Una, sjálfsmynd. Þótt Baldur eyði miklum tíma í að stúdera myndavélina finnst mér hann ekki alveg hafa náð tökum á að taka góðar myndir... skrýtið.


|


Þreyttur lítill kall



Jæja, Sif er lögð af stað. Lendir í Keflavík á miðvikudagsmorgunn. Hún var rosalega spennt, ætlaði ekki að geta sofnað og var að reyna að telja dagana sem hún myndi vera á Íslandi. Gaman að fylgjast með henni.
Sóttum hana í sumarbúðirnar á laugardaginn. Þar hafði hún skemmt sér vel, alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gera, en hún var samt alveg tilbúin að koma með okkur heim. Sumarbúðirnar voru staddar upp í fjöllunum og voru ansi brattir og hlykkjóttir vegir sem þurfti að fara um til að komast. Við fórum svo strandleiðina til baka, stoppuðum í sætum bæ sem heitir Half Moon Bay, og borðuðum fisk á ágætis veitingastað. Keyptum ferska ávexti á markaði og brunuðum svo heim.
Á sunnudag hljóp Snorri hálfmaraþon (21 km! Þetta er náttúrulega bilun) uppí Napadal. Hann lagði af stað kl. 4 um morguninn, hljóp þetta á fínum tíma og hitti okkur svo um hádegisbil í afmæli Flóka Fannars Halldórssonar sem varð eins árs þennan dag. Góður matur, skemmtilegt fólk og mikill hiti. Kíktum svo í heimsókn til Soffíu og Ágústar.
Næstu helgi er planið að fara upp í borg og spóka sig. Við ætlum að minnsta kosti þrjár au-pair að fara, mögulega fjórar. Það verður tilbreyting, maður er allt of latur að fara eitthvað á eigin spýtur.
Jæja fólk, segið mér nú hvað þið eruð að bardúsa...



Í dag er Einar stjúpfaðir minn sextugur. Stór áfangi og það er leiðinlegt að missa af fögnuðinum. Til hamingju með afmælið Einar!



4. júlí leið eins og venjulegur sunnudagur. Fjölskyldan fór að sjá einhverja skemmtun hér í bæ, meðan barnapían svaf lengi og las og horfði á imbann. Um kvöldið var grillaður kjúklingur og grænmeti og bökuð 4. júlí kaka sem var skreytt eins og bandaríski fáninn.
Hún rann ljúft niður. Hérna í Fremont eru allir flugeldar bannaðir og var því lítið stuð hér í hverfinu. Sif var aftur á móti ekki sátt við að sjá ekki flugelda í meira en ár (hún sá þá síðast 4.júlí 2003) og við var því haldið út í leit að flugeldum. Við ókum til Union City, þar sem borgaryfirvöld eru örlítið rólegri yfir flugeldum og mátti sjá einn og einn fara á loft. Mest var þetta þó svona smágos sem fólk setti á götuna fyrir framan húsið og sat og horfði á með bjór í annarri og bjór í hinni...
Á mánudag var frí í vinnunní hjá Gu og Sno. Við keyrðum Sif í rútuna um morguninn, hún var mjög spennt að fara og er eflaust að skemmta sér konunglega. Húsið er þó tómlegt án hennar hér. Svo verður hún heima í 3 daga og fer svo til Íslands. Snökt... Baldur fær hins vegar óskipta athygli og kvartar ekki, þótt hann sakni hennar eflaust líka.
Ragnhildur keypti sér nokkrar dvd myndir og lét senda hingað og við Guðrún njótum góðs af því, fáum að athuga hvort allir diskarnir virki áður en við sendum Sif með góssið heim til Ragnhildar. Will og Grace er búið að rúlla ansi mikið í tækinu... gaman að því.
Íslenskuneminn minn kemur á eftir, hún er alltaf að læra eitthvað nýtt og virðist hafa mjög gaman að þessu. Þó virðist hún skammast sín eitthvað fyrir framburðinn eins og hún geri ráð fyrir því að fólk muni bara hlæja að henni ef hún segir hlutina ekki rétt. Sem er náttúrulega ekki rétt. Maður bara rétt flissar innan í sér ;)
Þarf að fara með kisu í dag að láta taka saumana. Hún virðist vera búin að sætta sig við þessa minnkun á sér.
Athugið að skottið er svona mjótt á endanum því hárin voru rökuð af vegna aðgerðarinnar, þau vaxa vonandi aftur svo þetta verður ekki eins snubbótt...
Hún lét þetta ekki aftra sér þegar hún ákvað að það væri sniðugt að stökkva upp á þak í fyrrakvöld. Aðeins verra að komast niður. Guðrún var að fara út með ruslið og heyrði bara mjálmið í henni en sá ekki hvar hún var. Þá er hún föst þarna uppi og þorði ekki að hoppa. Við sóttum stiga og náðum í hana... kjánaprikið.
Kveðjur til allra.



Púff !! Í dag fórum við Snorri, Sif og Steinunn í tívolí. Vöknuðum snemma og vorum mætt þegar garðurinn opnaði. Öskruðum mikið í rússíbönunum, það mikið að ég finn fyrir því í hálsinum. Raddböndin orðin ansi þreytt. Sif stóð sig eins og hetja, fór í rússíbana (sem börn sem hafa náð ákveðinni hæð mega fara í) og fannst mjög gaman. Hún var líka í vatnsbaði ýmiskonar í drjúgan tíma meðan við Steinunn skruppum í TopGun, svona rússíbani þar sem maður dinglar neðan úr brautinni. Hef farið í hann áður, en mundi það ekki og skellti mér aftur... hef örugglega bælt minningarnar því hann var frekar hræðilegur, en mjög skemmtilegur samt.
Eftir rúma 8 klukkutíma veru í garðinum í miklum hita og 4. júlí-helgar-kösinni fórum við heim til Finns og Hrefnu þar sem þau buðu upp á ljúffengan lax og Guðrún bauð upp á ferskjur-úr-garðinum-böku. NAMM !
Fórum frekar snemma heim því Baldur vildi ekki lúlla í Önnurúmi og við hin vorum öll frekar sloj eftir daginn. Góður dagur, vona bara að ég fari ekki að dreyma svaðilfarir í rússíbönum og öskra upp úr svefni.



Við Gu Birna fórum á Spiderman II í gær í boði Gúgúl. Takk fyrir okkur. Skemmtum okkur ágætlega þrátt fyrir að hvoruð okkar myndi hvað gerst hefði í fyrri myndinni.
Í dag kom neminn minn og lærði "koll af kolli" sem hún þuldi upp koll af kolli. Erfitt fyrir Ameríkana að bera fram þetta hljóð sem myndast af tveimur L-um. Sif las fyrir hana og hún fyrir Sif. Ég næ þannig að sameina þessa tvo bekki sem ég hef: íslenska fyrir byrjendur og framhaldsnámskeið fyrir unga Íslendinga búsetta erlendis, í íslenska eins og hún leggur sig. Ansi gott.
Í kvöld komu Finnur, Hrefna, Steinunn og frumburðurinn Anna Sólrún í heimsókn, færandi hendi. Komu þau með ljúffengt kjöt, ýmist ljóst, dökkt eða rautt, ásamt margvíslegu meðlæti. Þessu var öllu skellt á grillið og rennt niður með eðal-tveggjadollara-rauðvíni. Spilamennskan var æfð. Fimbulfamb og Sequence voru spiluð. Guðrún ætti að vinna sem orðabók því hún rúllaði þessu upp í fimbulfambinu, og allir skiptust á að vinna Sequence, NEMA ÉG !!!
Á morgun er föstudagur og veit ég ekki hvað hann ber í skauti sér, en á laugardag verður farið í tívolí... Dropzone þú manst Ragnhildur! Mikið gaman, mikið fjör. Á sunnudaginn er 4. júlí, ekki er alveg ákveðið hvert haldið verður þá, en á mánudag verður settið í fríi. Þá mun Sif einnig halda af stað í fjallaferð með ypsilon-emm-sé-a sem er hið ameríska KFUM, þar sem hún mun dvelja í fjallakofa í eina viku.
En nú skal haldið til draumalandsins.


Hlekkir