Stöndum í ströngu þessa dagana við að reyna að tryggja okkur öruggt húsnæði fyrir næsta vetur. Erum fjögur búin að vera að leita að húsi í nokkra mánuði. Fundum svo hús í gegnum fólk sem við þekkjum. Enn er þó ekki búið að landa samningum og þetta er að taka allt allt of langan tíma.

Við sitjum 3-4 saman heilu kvöldstundirnar að skrifa diplómatísk og kurteis en þó ákveðin bréf, til leigusalans, þar sem við reynum að fá þau til að skilja að ekkert okkar getur borgað tvöfalda leigu í júlí og ágúst. Erum öll skuldbundin til að borga leigu hér í blokkinni út ágúst. Gætum fengið húsið í byrjun júlí. Hvað er þá gert? Þá er tekið til þess að skríða og biðja fallega.

Húsið er annars gamalt sex herbergja hús í miðbæ Delft. Herbergin eru mjög misstór, þrjú stór, þrjú mjög lítil og leigan því einnig mishá. Eldhús, stofa, svalir, ris. Erum agalega spennt, en þorum ekki að flytja inn í huganum fyrr en samningar hafa verið undirritaðir. Allir orðnir þreyttir á einmenningslífinu í blokkinni.

Skólinn að sjálfsögðu í fullum gír. Hann er þó óþarflega langur finnst mér... verð ekki búin fyrr en í fyrstu vikunni í júlí. Er að teikna safnið á Robben eyju. Gengur svona la la skulum við segja. En allt á réttri leið. Ennþá er ekki allt komið á hreint varðandi sumarið, þó geri ég ráð fyrir að koma heim til Íslands í júlí, og vera í mánuð kannski. Fara svo aftur út í ágúst, trúlega til að vinna fyrir kennarann minn á síðustu önn, og vonandi til að flytja í nýja húsið líka! Krosslegg fingur.

Hér er sumarið ekki komið. Það kom um daginn, á sama tíma og það kom til Íslands. En þegar fór að snjóa á Íslandi þá komu bara rosalegt rok og rigningar. Þrumur og eldingar og læti. Ég verð alltaf jafn skíthrædd í þrumuveðri. Virðist aldrei ætla að læra á þetta. Núna er skýjað og bara ansi kalt, brrr. Vonandi fer þetta nú að koma.



Eitthvað afkáralegt við að sjá finnsku skrímslin taka við fallegum blómvendi og kyssa fólk. Svona eins og að gefa fallegri blómarós gaffal Satans.

Loksins vann Finnland, ég væri til í að hlera samtal sextugra hjóna sitjandi inni í stofu í Seinajoki, nú þegar úrslitin eru kunn.

Blendnar tilfinningar býst ég við.

Hlakka til að sjá Eurovision á næsta ári. Hvað ætli komi margir með fríksjó atriði. Og ætli við munum endurtaka leikinn. Aftur fríksjó frá Íslandi?



Bróðir minn var svo góður að kaupa fyrir mig tölvu í Amríku um daginn. Nú er hún á Íslandi. Ef þið, eða einhver sem þið þekkið eiga leið sína til Amsterdam á næstunni, megið þið láta mig vita. Mig vantar tölvuna, get komið á flugvöllinn og tekið á móti henni (og fólkinu). Hafið eyrun opin gott fólk. Tilkynningalestri er lokið.



Setti inn myndir frá Laban dansmiðstöðinni í London, sérstaklega fyrir hana Önnu Sóleyju ;) sem er að hanna dansmiðstöð af einhverju tagi.

Vonandi finnur þú einhverjar myndir þarna.



Byggingin er í iðnaðarhverfi, ekki mikið fallegt að sjá í kring, en svo rís hún upp úr þessu grashólum. Landslagið gerir bygginguna að mínu mati. Þennan dag var yndislegt að vera þarna. Dansnemendur úti að æfa sporin, þau nota brekkurnar, grasið. Þau nota líka gluggana á byggingunni til að sjá sjálf sig. Það er ástæða fyrir því að gluggarnir ná alveg niður á botn klæðningarinnar held ég. Strúktúrinn er steinsteypa, en svo kemur bil, eflaust 20 cm þar til marglit klæðningin tekur við. Gluggarnir eru sumir í flútti við klæðninguna og sumir bakvið hana. Þannig verður stemningin innandyra mjög fjölbreytileg og litrík. Fengum ekki að fara um bygginguna alla að innan, en það eru mjög skemmtilegar opnanir ofan frá. Þakið sígur niður. Það er líka ljósbrunnur inni í byggingunni miðri. Svona lítill courtyard, sem þó er ekki notaður nema fyrir ljós held ég. Vorum öll mjög hrifin af þessari byggingu, virtist vera góður andi þarna og mikill kraftur. Húsið er mjög í stíl við það sem á sér stað þarna. Unglegt og hresst.

Þetta var arkitektúr pistill dagsins. Anna Sóley þú skrifar mér línu ef þú hefur fleiri spurningar.

Annars er London ferðasagan alveg á leiðinni...



Baldur Snorrason systursonur minn á afmæli í dag.

Hann er þriggja ára. Býr í Kaliforníu en flytur til Íslands í sumar eftir líftíðardvöl í Ameríkunni.

Hamingjuóskir á afmælisdaginn, þótt ég stórefist um að hann lesi þetta blogg. Hann kann ekki að lesa...held ég.

Já, Anna Sóley, myndir koma inn í kvöld, en nú verð ég að fá mér eitthvað að borða. Ég er starvation central. (satc, nina katz)

doei



Í gær var mæðradagurinn.

Ég tapaði í keppninni besta barn móður minnar, því ég hafði ekki hugmynd um að dagurinn væri í gær. Elskuleg yngri systir mín minnti mig á það. Ég sagðist ekki hafa íslenskt dagatal. Þá minnti hún mig á að það væri líka mæðradagurinn í Hollandi. Ég sagðist ekki eiga hollenskt dagatal. Ég fór þó út í búð í dag, tók ekki eftir neinu athugaverðu. Fullt af blómvöndum til sölu, en það er alltaf þannig. Engin breyting þar á.

Ég hringdi þó í móður mína, eftir miðnætti að hollenskum tíma reyndar, en það var ennþá klukkutími í miðnætti á Íslandi. Slapp fyrir horn. Hún sagði mér að eldri systir mín hefði hringt deginum áður, yngri systir mín hefði komið snemma með blómvönd og heimtað viðurkenningu á hvað hún væri góð dóttir, svo hefði bróðir minn komið með blómvönd einnig. Hún virtist þó alveg fyrirgefa mér seinaganginn og minnis- og dagatalsleysið. Spurði hvernig ég færi að því að þekkja dagana hérna úti. Vildi að Windows stýrikerfið kæmi með fullkomnu dagatali með íslenskum hátíðadögum inná. Svona eins og dagatöl eiga að vera.

Ég er versta barn móður minnar. Hringdi ekki einu sinni í stjúpmóður mína. Ég er ekki að standa mig. Er í fjórða sæti af fjórum mögulegum. Svei.

Til hamingju með gærdaginn mæður.

p.s. telst maður ekki mamma ef maður á kisu, þótt hún sé í fóstri í 2036 kílómetra fjarlægð (samkvæmt Google Earth)?? Ef svo er þýðir það reyndar að ég hefði átt að óska öllum gæludýraeigendum til hamingju með daginn einnig, og þá sérstaklega montinni yngri systur minni. O jæja, til hamingju með daginn elsku Ragnhildur mín, takk fyrir að vera barninu mínu góð móðir í fjarveru minni. Til hamingju með daginn allir (kvenkyns) gæludýraeigendur. Sjálf tek ég við hamingjuóskum í kommentakerfinu.



jahá

ég er 11100 daga gömul í dag!

en þú?



Já, drottningardagurinn kominn og farinn. Allir sem bjórdós geta valdið fóru til Amsterdam á laugardaginn, borgin fylltist af appelsínugulum lýðnum sem hyllti drottninguna og konungsfjölskylduna. Þó skilst mér að þetta sé ekki afmælisdagur drottningar heldur drottningarmóðurinnar. Við fórum að sjálfsögðu gulklædd til höfuðborgarinnar og skemmtum okkur með innfæddum og innfluttum við söng, dans og drykkju.



Myndirnar má sjá á myndasíðunni, en verið getur að hlekkjasafnið hafi flust neðst á síðuna mína, það fer eftir stærð skjásins ykkur held ég. Bendi einnig á stórfínar myndir Guðrúnar systur og Snorra frá Hawai'i.

Þessa vikuna er enginn skóli og af því tilefni ætlum við Ren og Bing að skreppa til London. Förum á miðvikudaginn og komum aftur á mánudaginn. Ætlum að hitta Gosiu pólsku bekkjarsystur okkar, sem tók sér frí þessa önnina, og hefur verið í Póllandi síðustu mánuðina. Mikil tilhlökkun í gangi, en þangað til verð ég að taka á lærdómnum og búa til nokkrar teikningar af safninu á Robben eyju. Þetta mjakast alltsaman.

Já, í öðrum fréttum: Hjördís Sóley vinkona úr LHI komst inn í skólann og því mun heldur betur fjölga í Íslendingafélaginu næsta vetur. Að sjálfsögðu eru þetta stórkostleg tíðindi og ég eflaust álíka spennt og þau Kári og Styrmir.

Gleðilegan frídag verkalýðsins!


Hlekkir