Gleðileg jól gott fólk!



Þetta árið eru jólin öðruvísi.

Í gærkvöld hélt ég upp á jólin með Ragnhildi, Ren og Bing ásamt 6 öðrum samnemendum mínum. Þau eru öll frá Asíu. Taiwan, Hong Kong, Japan, Malasíu, Singapúr.

Við Ragnhildur byrjðum að elda á Þorláksmessu eftir að hafa verið að versla í matinn nánast allan daginn. Þá gerðum við hnetusteikina tilbúna þar sem ekki allir í hópnum borða kjöt.

Svo kom aðfangadagur bjartur og fagur.

Fékk myndina Annie í skóinn. Uppáhaldsmyndin mín þegar ég var barn.
Morgunmatur.
Ris-a-la-mand grauturinn gerður tilbúinn.
Sætar kartöflur soðnar.
Kartöflur soðnar.
Waldorfsalat búið til.
Skyrsalat líka.
Sveppir steiktir.
Kartöflumúsin stöppuð.
Rauðkálið hitað.
Sætkartöflumúsin.
Hnetusteik í ofninn.
Lagt á borð.
Stofan skreytt.
Jólatré tilbúið úr stólum.
Sveppasósan.
Aspassúpan hituð.
Gestir mæta.
Gláinn tilbúinn.
Svínahamborgarhryggur steiktur.
Svínahamborgarhryggur settur í ofninn.
Súpan borin fram.
Hnetusteik borðuð með meðlæti.
Hamborgarhryggur borðaður með meðlæti.
Rauðvín sötrað.
Rjóminn þeyttur í möndlugrautinn.
Kirsuberjasósan hituð.
Möndlugrautur með tilheyrandi leik.
Hiroko frá Japan fékk möndluna en gleypti.
Fékk cd frá Ampop.
Uppvask.
Kaffi og Baileys.
Nóakonfekt.
Pakkarugl.
Fékk kerti frá Kaz.
Spjall.
Út að labba, tókum með okkur freyðivín.
Leikir á torginu. (hlaupið í skarðið, fimm dimmalimm)
Kíkt á barinn. (einn bjór og spilað)
Kveðja gesti.
Heim.
Opna pakka að heiman og héðan.
Lesa jólakortin.
Horfa á Annie.
Sofna.


Í dag Fórum við svo að máta sófann þeirra Hjördísar og Kára. Þau eru farin til Íslands og báðu mig að fylgjast aðeins með húsinu fyrir sig. Elduðum hangikétið og grænu baunirnar, uppstúf og rauðkál. Malt og appelsín. Nammi og ái hvað ég borðaði mikið!




Þetta eru öðruvísi jól. En engu að síður mjög skemmtileg. Það var ákveðin áskorun að ætla sjálf (með Ragnhildi auðvitað) um matinn. En þetta var æði.
Að fara út í leiki var líka gaman. Pakkarnir voru mjög fínir, margar góðar bækur og ullarsokkar og hringurinn sem mig hefur langað í síðan Ragnhildur fékk sinn.

Svo er það bara París næst á dagskrá. Fjórar nætur þar. Svo áramótin í Amsterdam.






Átti yndislegan afmælisdag hér í Delft. Í gærkvöld þegar klukkan sló 12 á miðnætti arkaði hersingin húsfélagar mínir inn í herbergið syngjandi afmælissönginn með þrjú risakerti á kafi í jólaköku og eitt lítið svona til hliðar.
Í morgun var ég svo vakin með pökkum í rúmið. Það var indælt og flottir pakkar! Svo fórum við Ragnhildur út að borða í hádeginu, röltum um bæinn, keyptum nokkrar jólagjafir og fínerí. Fórum heim í kaffi og með'í. Ragnhildur bakaði svo jarðaberjatertuna mína góðu. Hendrik fór í eldhúsið að elda og svo fór fólk að tínast inn í matarboðið. Góður félagsskapur, góður matur, góðar gjafir og góð símtöl frá ástvinum nær og fjær. Yndislegt kvöld. Mikið hlegið, mikið borðað og drukkið.



Núna er Ragnhildur undrasystir sofnuð og ég er að senda út boðskortin í Aðfangadagsmatinn. Verðum með 12 manns í mat! Eins gott að standa sig.

Jólin eru að kooooomaaaaaa!

Takk fyrir mig. Ég er afar þakklát.



Það hefur ýmislegt gengið á undanfarna daga.

Það hefur einn aðili hérna innan hússins ákveðið að leggja mig í einelti. Á hverju kvöldi fæ ég oddhvassar árásir frá viðkomandi, án þess að ég viti hvað ég hef gert af mér. Ég kem engum vörnum við. Á hverjum degi finn ég betur og betur hvernig þessar árásir eru að fara illa með mig. Þetta er að leggjast á sálina. Ég er hætt að geta litið í spegil á morgnana eftir slæman svefn. Þetta bókstaflega sýgur úr mér alla orku og mér finnst ég verða undir í þessu "stríði" sem er þó svo einhliða. Hinir húsfélagarnir standa utan við þessa orrahríð og geta lítið gert. Þeir veita mér þó stuðning þegar ég kvarta yfir þessu og það er þeim greinilegt hvaða áhrif þessa ástand er að hafa á mig. Viðkomandi hélt sig þó á mottunni meðan pabbi og Gunnhildur voru hérna. Vildi greinilega ekki spilla helginni. Þau urðu allavega ekki vör við neitt, vona ég. En ég er búin að vera í algjöru rusli yfir þessu, langar bara að klóra mig til blóðs þegar ég er minnt á ástandið. Ég er ekki að verja mig nóg greinilega.

Þetta breyttist í kvöld, þegar hún ætlaði enn og aftur að gera sig tilbúna til atlögu. Hendrik, hetjan mín, tók sig til og sló hana! Fast!!! Það kom blóð og allt. Slettist á vegginn. Það er þar enn. En það sem er svo ógeðslegt er að þetta er MITT blóð. Það spýttist út úr henni, bannsettri moskítóflugunni, þegar hann drap hana.





Fyrir viku vorum við með miðannarkynningu. Okkar verkefni er enn í hópvinnu og við unnum allt efnið saman. Ekkert okkar er byrjað á eigin hönnun. Við lögðum mikið í þessa kynningu. Svona lítur þetta út. Núna er það bara okkar að ná að draga saman einhverjar niðurstöður úr þessari greiningu.

bekkjarfélagar
fleiri
og fleiri
og enn fleiri...
kennarinn í svörtu og annar krítíker á midterm kynningunni
dæmigerður panell, vorum með 16 byggingar
panelarnir með byggingunum sem við rannsökuðum í Peking og módelin fyrir neðan
sneiðingin í gegnum Peking, þessi útprentun er 10 metrar á lengd
þéttleika stúdíur sem við gerðum fyrr í vetur, erum að taka saman í bækling alla rannsóknina okkar
við buðum upp á kínverskt te í kynningunni :)


Hlekkir