Já, var orðin leið á grænu slepjunni. Kannski gerir nýtt útlit mig virkari í skrifum, við skulum sjá til.

Annars er ég að vinna að verkefni sem lýtur að eftirlitsmyndavélum. Hvaða áhrif eru þær að hafa? Eru Reykvíkingar á gangi um miðborgina meðvitaðir um fjölda myndavéla beint að þeim? Hafa þær þau áhrif að vegfarendum finnist þeir vera óhultari en ella? Finnst þeim brotið á einkalífi sínu? Fyllist það kvíða vegna þess að það er verið að fylgjast með þeim? Hvað haldið þið?

Ég hef fundið mikið efni á netinu, fann mjög fagmannlega vefsíðu sem kennir fólki að eyðileggja eftirlitsmyndavélar. Bjó til þessa skýringamynd eftir þeim leiðbeiningum.



En já, eru einhverjir að velta fyrir sér hvað þetta komi arkitektúr við? Verkefnið sem við erum að gera mun snúast um það að hanna safn á Robben-eyju, sem er rétt hjá Höfðaborg í Suður-Afríku. Á þessari eyju var Nelson Mandela í haldi vegna pólitískra skoðanna sinna í meira en tuttugu ár í hámarks gæslu. Innan veggja fangelsis. Undanfari hönnunarferlisins er að kanna "veggi" í Rotterdam. Áþreifanlega veggi og ósýnilega. Hvað skiptir fólki? Hvernig er hægt að komast hinum megin við vegginn. Ég fór að skoða myndavélar, því vitað er að þær hafa áhrif á hegðun fólks. Misjafnar skoðanir eru um þetta eftirlit í borgum. Tilgangurinn er að minnka glæpatíðni, en skýrslur sýna að þó glæpum fækki þar sem myndavélar eru, þá fjölgar þeim bara annarsstaðar. En hinn almenni borgari virðist vera lítill liður í þessari jöfnu. Hvort myndavélar séu að brjóta á almennum rétti fólks til einkalífs, jafnvel þótt það sé statt á almannafæri er vafaatriði. Þessar rannsóknir mínar mun ég svo nota til að koma mér af stað í hönnunarferlinu. Ég er farin að hlakka til að hanna þetta safn. Er búin að vera að lesa bókina hans Nelsons "A Long Walk to Freedom", og það gefur manni mjög góða sýn á umhverfi eyjunnar. Vildi bara að við gætum farið þangað og kannað aðstæður sjálf.



Daginn áður en Einar og Guðrún urðu léttari, varð Heike bekkjarfélagi úr LHI einnig léttari. Hún eignaðist stelpu sem hefur verið nefnd Frida. Heike sagði að það hefði verið fullt tungl og fullt af konum sem eignuðust börn þessa dagana. Ótrúlegt hvað staða tungls hefur mikil áhrif á mannfólkið.



Einar Lárusson, kær vinur minn og Guðrún Bjarkadóttir eiginkona hans urðu stoltir foreldrar Sunnevu Einarsdóttur í vikunni. Hamingjuóskir sendast gegnum hafið þökk sé veraldarvefnum. Enginn vafi á að þau verða afbragðs foreldrar og stúlkan sú litla verður eflaust góð viðbót í íslensku fólksflóruna, enda komin af duglegu og myndarlegu fólki. Myndir af barni og foreldrum má nálgast hér.



Ég lagðist í flensu í síðustu viku. Fékk hita og beinverki og almennan slappleika og slen. Aldrei gaman, en gerist jú oftar en maður vildi. Svosem ekki frásögu færandi, utan þeirrar "til"viljunar að ég lagðist í slen um leið og Ren og Hendrik fóru til Madrid í námsferð. Um leið, upp á dag. Fremur undarlegt.

Ég held að fólk geti alveg saknað ástvina sinna þannig að því líði illa líkamlega. En þar sem við Ren og Hendrik erum einungis góðir vinir bjóst ég ekki við þvílíkum viðbrögðum af minni hálfu. Get ég t.d. kallað þá ástvini mína? Þeir eru vinir mínir, og jú, á einhverju plani elska ég þá báða. Ég hitti þá daglega, eða svona hér um bil. Við höfum sálgreint hvert annað þvers og kruss og mér finnst ég þekkja þá báða mjög vel. E.t.v betur en marga sem ég hef talið mína nánustu í gegnum tíðina.
Ég var búin að kvíða því töluvert að þeir færu, skildu mig eftir. Ekki misskilja mig. Það er hellingur af fólki til að leika við hérna. Það er bara ekki eins.

Ég ætla að halda í þá skoðun að þessi veikleiki hafi verið tilviljun.
Ren og Hendrik eru aftur á móti mjög upp með sér að ég hafi tekið brottför þeirra svona nærri mér.



Agnes var með þessa stórskemmtilegu könnun á sínu bloggi. Varð að kíkja á mitt nördalevel. Get þó ekki sagt að ég fyrirlíti nörda. Held ég myndi alveg vilja vera meiri nörd en ég er samkvæmt þessari könnun.

I am nerdier than 4% of all people. Are you nerdier? Click here to find out!



Morgunblaðið hefur vakið athygli á þessari frétt, sem í sjálfu sér er ekki góð. Það að arkitekt geti einsamall falsað tölur um burðarþol, sem verður svo fólki að bana í minnsta skjálfta er hræðilegt. En mér finnst einnig merkilegt að það sér fyrirtæki í Japan sem heitir "Eitthvað", eins og sjá má í fjórðu málsgrein þessarar fréttar, sem Morgunblaðið, einn virtasti fréttamiðill landins sendir frá sér.
En já, allir gera mistök. Líka fréttamenn.

"Japanskur arkitekt falsaði skjálftaþolstölur fyrir fimm háhýsi.
Annar japanskur arkitekt hefur verið sakaður um að hafa falsað tölur um jarðskjálftaþol húsa sem hann hannaði í Sapporo á Hokkaido, að því er yfirmaður byggingaeftirlits borgarinnar segir. Mun arkitektinn, Ryoichi Asanuma, hafa falsað tölur fyrir að minnsta kosti fimm hús. Tjáði hann eftirlitsmönnum að hann hafi gert það til að flýta hönnunarferlinu og geta lokið verkinu á tilsettum tíma.

Rannsókn er hafin á málinu og beinist hún einnig að tugum annarra húsa í öðrum borgum sem Asanuma vann við, að sögn embættismanns á Hokkaido. Uppvíst varð um málið eftir að verkfræðiráðgjafarfyrirtæki vakti máls á grunsemdum varðandi hús sem Asanuma hannaði.

Í nóvember viðurkenndi annar arkitekt, Hidetsugu Aneha, að hafa falsað skjálftaþolstölur fyrir tugi húsa til að draga úr byggingakostnaði. Að sögn yfirvalda er hætta á að 97 hús sem Aneha vann við hrynji í vægum jarðskjálftum. Tugir húsa sem hann hannaði, þ.á m. í Tókýó, verða rifin og hafa þúsundir manna orðið að flytja búferlum af þessum sökum.

Í síðasta mánuði greindu embættismenn frá því að grunur léti á að hönnunarfyrirtæki í Fukoka, sem heitir Eitthvað, hafi falsað skjálftaþolstölur fyrir að minnsta kosti þrjú hús. Arkitektinn Shogo Nakamori, framkvæmdastjóri Einhvers, segir grunsemdirnar tilhæfulausar.

Kröfur um skjálftaþol húsa í Japan voru hertar eftir að 7,2 stiga jarðskjálfti varð 6.400 manns að bana í borginni Kobe 1995. Japan er eitt mesta jarðskjálftasvæði heims, en undir því mætast fjórir meginlandsflekar." tekið af fréttavef mbl.is


Hlekkir