Skrapp til Svíþjóðar á dræsunámskeið hjá
Önnu Sóleyju. Vorum báðar að vinna að sama skjalinu í Vector Works, færðum það á milli oft á dag. Anna Sóley kallaði það "Slut-semiar", því hún talar jú sænsku og þetta er lokaverkefnið á lokaönninni. Ég hins vegar lifi í enskumælandi umhverfi og las þennan titil öðruvísi. Slut seminar. Skemmtilegt námskeið. Slutseminar1, slutseminar2...

Það var semsagt unnið í Spa-inu fína í Stykkishólmi. Þetta er lokaverkefnið hennar frá KTH skólanum. Ég verð sko fyrir vonbrigðum ef það verður ekki byrjað á að byggja þetta spa næst þegar ég kem þangað. Það á svo vel heima þarna. Þetta er skemmtilegt verkefni hjá henni og varð bara betra og betra með hverjum degi. Hún alveg galvösk til í að breyta hlutum og bæta, þótt stuttur tími væri til stefnu í lokaskil. Hressandi að koma og vinna svona fyrir annan en sig sjálfan. Maður þarf ekki að taka ábyrgðina einhvernveginn, og leyfir öllu hugmyndaflæði að fara af stað. Ég hlakka til að sjá svo lokaafurðina, teikningarnar og módelin sem ég veit að eru í bígerð. Svo verður það ein þreytt en sátt Anna Sóley sem ver verkefnið sitt í byrjun júní.
Þegar ég var ekki hlekkjuð við tölvuna fór ég niðrí bæ að skoða mig um. Einn dag fór um við Anna Sóley saman, kíkti í skólann hennar þar sem hún átti fund með kennaranum sínum. Fórum út að borða á japanskan stað. Sushi er og verður minn uppáhaldsmatur. Röltum um Gamla Stan og kíktum í búðir. H og M í Svíþjóð er gígantískt.
Stokkhólmur er falleg borg. Þar býr líka agalega mikið af fallegu fólki. Fallega fólkið er allt í fallegum fötum og með fallegt hár. Pleh.
En já, borgin stóð alveg fyrir sínu. Og Asplund var meistari. Það er ekki orðum ofaukið. Mæli alveg með Stokkhólmi, og næst þegar ég fer ætla ég að sjá Leverenz. Runsa er yndislega fallegt svæði sem myndi hæfa vel í fallegri bíómynd, og það var alveg frábært að vera hjá þeim ektahjónum Önnu Sóleyju og Dosta í heimsókn. Takk fyrir mig!
Ég var búin að djóka í Önnu Sóleyju að sem borgun fyrir að ég kæmi og ynni með henni að verkefninu hennar yrðu þau að gefa mér mat og drykk. Enda var ekki að því að spurja að það var fullur ísskápur af Grolsch bjór þegar ég mætti. Þau hafa tekið mig á orðinu. En fyrir utan bjórinn lifði ég á kavíar. Ekki slæmt. Ég gersamlega flippaði þegar ég sá kavíartúpuna í ísskápshurðinni og borðaði kavíar ofan á brauð í öll mál. Og milli mála líka. Tók með mér tvær túpur af Kalles kavíar og er búin að vera að kynna þennan snilldarmat fyrir sambýlingum mínum við misjafnar undirtektir. Það er bara fínt, þá fæ ég meira. Nú er ég samt búin að komast að því að hann fæst í IKEA. Þannig að næst þegar ég fer kaupi ég nokkrar túpur. Slúrp.
Já svo kom Eurovision, það var spennandi. (Hvíta-rússneska lagið að eilífu greipt í huga mér "work your magic! I never wanna lose this feeling, I am able and I'm willing, yes I'm willing!!!) Og alþingiskosningar, ennþá meira spennandi. Og ég komst að því að það er mjög þægilegt að sofa á sófanum þeirra. Svaf yfir kosningasjónvarpinu til kl. 9 um morguninn. Þá fór ég upp að sofa meira.
Myndir má sjá á myndasíðunni! Myndir2.
borgin í pano
Og já. Tölvan mín er ólæknandi. Það hefur Dosti sérlegur sérfræðingur í tölvuöryggi staðfest. Vélina þarf að strauja. Össössöss. Full af trójuhestum sem senda mig á miður skemmtilegar síður, án þess að ég viti það. Subbuskapurinn á þessu interneti!