Um daginn fórum við að ræða hvers við sökuðum. Ég sagðist sakna þess að liggja í góðum sófa og horfa á góða mynd og borða popp. Töluðum svo um kvikmyndir í þrjá tíma. Daginn eftir fórum við nokkur í IKEA, og mátuðum hvern sófann á fætur öðrum. Sátum kannski hálftíma í einum þeirra og létum okkur dreyma. Svo var ákveðið að í kvöld skyldi verða kvikmyndakvöld. Hittumst fimm heima hjá Hendrik, allir komu með sængurnar sínar og kodda. Hrúguðum því öllu á gólfið og lágum á þessum heimatilbúna sófa, borðuðum snakk og nammi og horfðum á tvær myndir. Kósýkvöld eins og AÞ myndi segja. Ekkert popp þó. Það er HÆTT að selja poppmaís. Bara til örbylgjupopp og þar sem ekkert okkar á ofn, þá varð ekkert úr poppátinu.
Í gær fórum við heim til Gosiu frá Póllandi. Hún leigir herbergi í svona alvöru húsi, ásamt tveimur hollenskum stelpum. Við elduðum heima hjá henni, eldamennskan stóð yfir frá 20 - 24. Svo mikið gekk á í eldhúsinu. Stofan heima hjá henni er sú minnsta sem ég hef komið inní. 2m x 2m. Þar inni vorum við 12. Svo var annar eins fjöldi í eldhúsinu og á ganginum og herberginu hennar. Hvar sem við komumst fyrir. Heimasætan var dugleg að hella oní okkur pólskum drykk, sem hún bar fram í tugatali. Sætur vodki, trönuberjasafi og dash af Tabasco. Sterkt!! Hún þurfti auðvitað að smakka drykkina til...enda fór það svo að hún drapst á miðnætti, gestgjafinn sjálfur. Pökkuðum henni inn í sæng, settum fötu við rúmið og héldum áfram að djamma.

Stofuliðið

Stofuliðið

Eldhússliðið með heimasætuna í forgrunni

Svo brenndi ég mig á diski, sem hafði staðið utan í kerti allt kvöldið. Ég hafði því ríka ástæðu til að halda á köldum bjór það sem eftir lifði kvöldsins. Svo í dag er blaðran búin að vera að stækka og stækka, gjörsamlega að fara að springa. Svo ég tilkynnti að " my bladder is almost bursting!" búin að gleyma því að ólíkt íslenskunni þá eru tvö ólík orð fyrir þvagblöðru og blöðrusár í enskunni. Bladder og blister. Þeim þótti þetta óþarflega persónulegar upplýsingar, að ég skyldi segja þeim að blaðran mín væri að springa.
Annars er það í fréttum að það er ekkert í fréttum. Hollendingar ekkert byrjaðir að skreyta ennþá. Nema í Ikea. Jólin þó á næsta leyti og ég hef grun um að verslunargenið sé að lifna við í hollendingum. Búðir eru að fyllast og mikill hamagangur. Þeir gefa sína pakka 5. des, sem er Sánkti Nikulásarmessa. Fór á markaðinn í Delft í dag, smakkaði síld í pulsubrauði. Skyndibitann hér í Hollandi. Í næstu viku er midterm-kynning á stúdíóverkefninu okkar. Erum enn að kanna gróðurhús, farin að koma með hugmyndir um hvernig blanda megi saman gróðurhúsum, íbúðarhúsum og hraðbraut á sælands(polder)-svæði. Mjög skemmtilegt verkefni... finnst ykkur það ekki líka? :)
Jú auðvitað, aðalfréttin sem skiptir mitt daglega líf gríðarlega miklu máli og mun hafa afleiðinar... hjólið mitt er bilað! GRENJ!
Bara gerðist eitthvað... og nú get ég ekki snúið pedölunum heilan hring, eitthvað fast á afturhjólinu, enginn veit hvað þetta er. Og fyrr en við vitum hvað er að, getum við ekki lagað það... eða reynt að laga það. Djö! Þarf að finna hjólaviðgerðamann, og hver hefur tíma í svoleiðis, ég bara spyr...
Þrjár vikur í komu Lækjarsmárahjónaleysanna!