Fólk orðið þreytt á springandi blöðru? Get trúað því. Það er ekki það að ég hafi ekkert að segja, finnst bara skemmtilegra að lesa um það sem aðrir eru að gera. En já. Ætli maður hripi ekki niður nokkrar línur, um hvað á mína daga hefur drifið.
Veðurstofa Hollands, veðurspá. Gert er ráð fyrir stormi. Stormurinn mun standa yfir í tvo daga, og feykja öllu lauslegu um. Hjól skulu læst við hluti. Regnföt skulu notuð. Byrgið ykkur upp af heitu kakói og góðu lestrarefni því þið munur ekki vilja fara út fyrir hússins dyr. Enda ekki hundi út sigandi. Slagviðrið eykur krafta sína í námunda við háhýsin í hverfinu hennar Unu í Delft, og munu lætin jaðra við verstu óveður á Íslandi.
En nú að öðru.
Fór til Antwerpen í Belgíu um daginn. Já, nú er maður búinn að bæta einu landinu við listann af löndum heimsóttum. Klukkutíma lestarferð. Ekki að sjá mikinn mun á löndunum. Nema þá að við drógum þá ályktun að Belgar sýndu ríkidæmi sitt á auðsjáanlegri hátt en Hollendingar. Við sáum ótrúlegan fjölda af fínum dýrum bílum, en sáum líka slömmin og ákváðum að það væri meiri munur á stéttunum þar. Tókum upp veskin og slógumst í för með ríka fólkinu, versluðum og röltum um í fína vetrarveðrinu.

Jólaverslunin að hefjast og allir (í ríka hverfinu) glaðir að sjá. Þegar við fórum í slömmin, með H&M poka, Camper poka og Puma poka leið okkur ekki eins vel. Samviskan alveg að drepa mann og ekki laust við að örlítil hræðsla hafi gert vart við sig. Minntist allt í einu óeirðanna sem hafa verið í Frakklandi og að sögn íslenskra fjölmiðla höfðu einhverjir bílar í Hollandi og Belgíu einnig orðið eldi að bráð. Gengum því rösklega aftur í átt að velmeguninni þar sem við stóðum ekki út úr eins og endurskinsmerki. Verslunarvíman var því fljótlega farin af okkur. Hugguðum okkur með því að fara út að borða og svo í bíó! Já hún er viðstödd þessi samviska manns. En hvernig ég læt hana stýra mér er ekki víst að sé neinum til góða.
Skólinn á fullu sem endranær. Ritgerðir og stúdíóverkefni. Kennaranum mínum finnst við almennt vera að taka of langt jólafrí, þar sem kynningar og próf séu eftir jól. Ég kem heim 20. des og fer aftur 10. jan. Ég er enn að meta hvort ég eigi að breyta miðunum og borga fullt af peningum, eða bara láta þetta flakka og vinna að heiman að verkefnunum í jólafríinu.
Agnes kom í stutt stopp frá Barcelona á föstudaginn. Hún var á leið á tjúttið í Amsterdam og Utrect og kom við hjá mér. Skoðuðum bókasafnið og skólahverfið, fórum út að borða og spjölluðum. Hún er víst eitthvað sár í bossanum eftir að dúsa á bögglaberanum.
Þórir og Jóhanna Kristín koma á morgun! Hlakka að sjálfsögðu mikið til að sjá þau. Vona bara að storminn muni lægja áður en þau lenda.
Nóg í bili, vonandi styttra bili en síðast.
Gleðilega jólaverslun, en munum eftir þeim sem hafa það ekki eins gott.