Rólegheita dagur í dag. Allt lokað á sunnudögum og varla fólk á ferli. Bærinn sefur mjög vært. Og ég líka.
Í kvöld komu svo Íslendingarnir í mat til mín. Við Rúna hjálpuðumst að við að elda matinn. Vorum með ítalskt þema í forrétt, mozzarella ost og tómatata, pestó og ost á brauði. Í aðalrétt var svo ónafngreindur fiskur sem bragðaðist þó ágætlega, kryddaður með karrýi og hrísgrjón. Rautt vín til að skola þessu niður. Einn sat á skrifborðsstól, einn á klappstól, einn í hægindastól og einn í rúminu. Borðið var skúffueiningin undan skrifborðinu. Agalega lekkert. Íslensk tónlist í eyrum. Ræddum Baugsmálið. Maður verður að fylgjast með skúbbinu í íslensku viðskipta/stjórnmálalífi.
Ræddi svo heillengi við Ragnhildi í gegnum Google-Talk. Tæknin er ótrúleg, og vel þegin. Minnist himinhárra símreikninga þegar ég var stödd í Atlanta forðum daga.
Ég var víst klukkuð um daginn...Á að segja 5 tilgangslausa hluti um sjálfa mig.
1. Ég sakna bíla. Ég hef ekki sest inn í bíl í 25 daga. Það hefur örugglega aldrei gerst áður.
2. Ég vakna við kvak í öndum annarsvegar og læti í ruslabílum hinsvegar, á hverjum degi. Stöku sinnum vakna ég við að fólk er að henda glerflöskum í einhversskonar dall, með þeim afleiðingum að þær brotna. Þetta á að vera endurvinnsla. Mér dytti ekki í hug að fara í Sorpu kl. 7 á morgni.
3. Ég hef aldrei hitt nágranna mína í íbúðum 55 og 59.
4. Ég hata hvítlaukspressur. Það er ekki séns að þrífa þær, öll þessi litlu göt gera mig brjálaða.
5. Ég elska tré. Sé þau út um gluggann hjá mér. En ef ég fer í heimsókn til fólksins á efstu hæðum hússins, horfir maður niður á þau. Langt fyrir neðan. Mjög ónáttúrulegt að horfa á tré ofan frá. Eina sem ég pæli í er hvort þau myndu taka fallið af mér, ef handriðið myndi gefa sig, þar sem ég stæði á 16. hæð að góna niður á trén.
Veit ekki hvern ég á að klukka. Held allir bloggarar sem ég þekki séu búnir að fá á sig svona klukk. Nema kannski Agnes og Anna Sóley og ef til vill Rúna. Sjáum hvort þær taki við sér. Klukk!