Stuttu eftir að ég kom hingað út í sumar fórum við á stúfana að finna tónleika til að fara á. Að hluta til vegna þess að Guðrún var með snert af samviskubiti að ég skyldi missa af Pixies tónleikunum heima sem ég var búin að kaupa miða á, og að hluta til vegna þess að okkur bara langaði á tónleika öll saman. Miðar voru keyptir og í kvöld fórum við á tónleika með hljómsveitinni
Train.
Jimmy gítarleikari Train, mynd fengin að láni frá heimasíðu hljómsveitarinnar.
Steinunn kom og bjargaði okkur með því að passa Baldur á meðan við hin færum að tjútta á tónleikum. Það gekk allt mjög vel og Baldur ekkert ósáttur við skiptin. Enda svo vel upp alið og gott barn. Við lögðum snemma af stað, vissum að það var töluverð keyrsla á tónleikasvæðið. Lögðum bílnum við einhvern skóla, þar sem biðu eftir okkur skutlur til að keyra okkur upp að sjálfu svæðinu Montalvo. Gömul hús og mjög fallegt umhverfi. Þetta var lítið útitónleikasvæði, með bekkjum og grasi vöxnum pöllum. Mikil nálægð við hljómsveitina. Gróður allt um kring, veitingastaður og útigrill, fólk að smakka vín og Lexus bílaumboðið var styrktaraðili og sýndi bílana sína við hliðina á sviðinu. Engin upphitunarhljómsveit, bandið byrjaði bará á tilsettum tíma og spiluðu mjög skemmtileg lög. Aðallega þeirra eigin lög, flest kannaðist maður við, en ekki öll. Söngvarinn var mjög fyndinn, söng æðislega vel, hljómsveitin spilaði mjög melódískt rokk og djömmuðu vel saman. Voru sex á sviðinu og gott sánd í þeim. Svo tóku þeir lag með Led Zeppelin frábærlega vel. Söngvarinn með sama raddsvið og Robert Plant, það ætlaði gjörsamlega allt að tryllast. Tóku Faith eftir George Michael mjög vel líka. Drops of Jupiter var svo rúsínan í pylsuendanum, biðu með að taka það þar búið var að klappa þá upp. Í alla staði frábært kvöld.