Föstudagurinn extra langi og páskaheimsókn
Published laugardagur, apríl 15 by Una | E-mail this post
Föstudaginn langa fór ég að hitta kennarann minn út af stúdíóverkefninu. Þess vegna vakti ég hina hefðbundnu nótt-fyrir-skil-nótt. Viðtalið gekk vel og ég get haldið ótrauð áfram að hanna safn á Robben eyju. Kom heim rétt eftir hádegi og ætlaði að leggja mig smá stund. Fékk reyndar alveg þriggja tíma svefn áður en Rendrik (Ren og Hendrik) komu og vöktu mig og drógu mig út í "smá" göngu túr í sólinni og góða veðrinu. Ég hlýddi bara. Þetta varð svo þriggja tíma göngutúr með tilheyrandi blöðrum á fótum, því ég var alls ekki undir þetta búin. Við bara gátum ekki hætt að labba! Gengum út á stórt grænt svæði fyrir utan bæinn, lögðumst í grasið, hlustuðum á það sem ég held fram að hafi verið lóa, tuggðum strá og horfðum á flugvélastrik í himninum.
Þegar heim var loksins komið tók við alsherjar tiltekt í herberginu hans Hendriks því hann var búinn að bjóða hátt í tuttugu manns í afmælisveislu en hann átti afmæli á fimmtudaginn. Áttum fína kvöldstund í góðum félagsskap með ótrúlegum hlátrasköllum og vitleysisgangi. Um klukkan þrjú var ég orðin aaansi sybbulúin og gekk til náða.
Vaknaði svo um tíuleytið, verslaði og fór út á flugvöll til að taka á móti mömmu og Einari sem ætla að dvelja í Delft fram á fimmtudag. Fórum upp á hótel, sem er sama hótel og Þórir bróðir og Jóhanna Kristín gistu á þegar þau komu. Mamma og Einar fengu svo sama frábæra herbergið og Þó og Jó fengu, með fínu svölunum og góða góða baðinu (sem ég ætla að nýta mér í annað sinn).
Fengum okkur kríu á hótelinu, mamma var á milli. Röltum svo um Delft, kíktum á markaðinn, settumst á útikaffihús og fengum okkur öl. Svo skröltum við heim til mín í smá sýningarrúnt. Kynnti þau fyrir Ren, Hendrik, Bing og HuiPing. Fórum svo á ítalskan veitingastað í kvöld að borða. Ágætis matur og fínn endir á góðum degi. Er svo aftur orðin frekar lúin og ætla að fara að fleygja mér. Á morgun er ætlunin að skoða flísaverksmiðjuna í Delft. Þeir framleiða eðal postulíns flísar, hvítar og bláar og Delft er víst ansi þekkt fyrir þessa framleiðslu, sem hefur haldist órofin frá sautjándu öld. Annaðkvöld er svo ætlunin að hafa óhefðbundinn páskamat í herberginu mínu í félagsskap fyrrnefndra skólafélaga og mömmu og Einars. Kynna þau fyrir lífinu hérna.
Gleðilega páska!